Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 376 – 302. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III orðist svo: Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal greiða styrk til úreldingar krókabáta á sóknardögum frá gildistöku laga þessara og til 1. apríl 1998. Skal úreldingarstyrkur nema allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Gilda ákvæði 7. og 8. gr., sem og ákvæði til bráðabirgða II, sbr. lög nr. 89/1995, að öðru leyti um styrkveitingu þessa. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1998 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 200 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eigendum krókabáta hefur staðið úreldingarstyrkur til boða frá því að lög nr. 89 21. júní 1995 tóku gildi. Með lögum nr. 157/1995 var veitt heimild til þess að úreldingarstyrkur vegna krókabáta mætti vera hærri en vegna úreldingar annarra báta til ársloka árið 1996 og allt að 80% til 1. október 1996. Með lögum nr. 109/1996 var ákvæðum um úreldingarstyrki vegna krókabáta breytt þannig að úreldingarstyrkur til 1. október 1996 gæti numið allt að 80% af húftryggingarverðmæti krókabáta sem veiðar stunduðu með tilteknum fjölda sóknardaga og allt að 60% af húftryggingarverðmæti krókabáta sem veiðar stunduðu með þorskaflahámarki, en hinum síðarnefndu hafði þá jafnframt verið veitt heimild til að framselja þorskaflahámark sitt til annarra krókabáta samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Heimild til að veita styrk allt að 80% af húftryggingarverðmæti krókabáta á sóknardögum var síðar endurnýjuð með lögum nr. 152 27. desember 1996 og gilti til 1. júlí 1997.
    Auknar aflaheimildir og framangreindar reglur hafa með öðru leitt til þeirrar niðurstöðu að jafnvægi hefur skapast milli veiðiheimilda og fjölda þeirra krókabáta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Bátar í þeim hópi eru nú 409 og hafa að meðaltali 63 lesta þorskveiðiheimild hver, en þessir bátar eru frjálsir að sókn í aðrar fisktegundir en þorsk. Þessir bátar voru 561 eftir að eigendur krókabáta völdu milli veiða með þorskaflahámarki og veiða með tilteknum fjölda sóknardaga fyrir 1. júlí 1996, og hefur þeim því fækkað um 152 á þessum tíma. Á sama tíma hafa verið greiddir styrkir úr Þróunarsjóði vegna 136 krókabáta sem heimild höfðu til veiða með þorskaflahámarki.
    Varðandi krókabáta sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga er aðra sögu að segja. Í þeim hópi sem stundar veiðar með handfærum eingöngu eru nú 277 bátar en þeir voru 291 eftir val 1996. Nú stunda 165 bátar veiðar með línu og handfærum en þeir voru 192 eftir val 1996. Þessum bátum hefur þannig fækkað um 41 á þessum tíma, en þar af hafa verið greiddir styrkir úr Þróunarsjóði vegna 30 báta í þessum tveimur veiðikerfum. Áður en lög nr. 109/1996 tóku gildi voru greiddir 80% styrkir vegna 24 báta ósundurgreint þannig að alls hafa verið greiddir styrkir vegna 190 báta frá upphafi.
    Þorskveiðiheimildir báta sem stunda veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga eru nú um 13 lestir af þorski á hvern bát að meðaltali og er samanlögð þorskveiðiheimild beggja sóknardagakerfanna um 5.000 lestir, miðað við óslægðan fisk, á fiskveiðiárinu 1997/1998. Á síðasta fiskveiðiári var afli þessara báta hins vegar um 20.000 lestir af þorski. Þetta hefur leitt til þess að leyfðir sóknardagar eru miklu færri fyrir þessa báta á yfirstandandi fiskveiðiári en á því síðasta, eða 26 fyrir handfærabáta og 20 fyrir línu- og handfærabáta. Fjöldi leyfðra sóknardaga er fundinn fyrir hvorn hóp fyrir sig með því að deila meðalþorskafla á leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs upp í sameiginlega þorskaflaviðmiðun þeirra báta sem í hlut eiga, fyrir komandi fiskveiðiár.
    Nú er lagt til með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, að eigendur krókabáta, sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga, geti endurskoðað val sitt. Er búist við að eigendur margra báta muni kjósa að endurskoða val sitt og flestir þeirra velja að stunda veiðar með þorskaflahámarki. Einnig er gert ráð fyrir að til lengdar muni það hafa nokkur áhrif til fækkunar báta á sóknardögum ef sú tillaga frumvarps til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða verður samþykkt að krókabát á sóknardögum megi alltaf flytja án veiðiheimilda yfir í þorskaflahámark.
    Þrátt fyrir framangreint er ljóst að staða margra krókabáta á sóknardögum er erfið, sérstaklega vegna þess að eigin aflareynsla viðkomandi báta er engin eða léleg á viðmiðunarárunum samkvæmt lögum nr. 83/1995, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Samkvæmt þeim var afli á almanaksárunum 1992, 1993 og 1994 lagður til grundvallar við útreikning svokallaðs reiknaðs þorskaflahámarks sem ákvarðar m.a. hvaða þorskaflaheimild bátur hefði í þorskaflahámarkskerfinu í dag. Vegna þessara vandamála er talið rétt að leggja til þá tímabundnu endurnýjun á heimild til greiðslu úreldingarstyrks vegna þessara báta sem hér er lögð til. Ekki er hægt að spá fyrir um það með neinni nákvæmni hversu margir bátar séu líklegir til að nýta sér þetta úreldingartilboð sem tillaga er gerð um að gildi frá gildistöku þessara laga til 1. apríl 1998. Það gæti verið allt frá því að vera fáir bátar upp í um eða yfir eitthundrað bátar.
    Vegna þeirra 190 krókabáta sem úreltir hafa verið frá upphafi, hafa verið greiddar 498,5 millj. kr. eða að meðaltali 2,6 millj. kr. fyrir hvern bát. Meðalúreldingarstyrkur vegna 54 báta sem úreltir voru ósundurgreint (24) eða voru á sóknardögum (30) var 2,3 millj. kr. fyrir hvern bát. Ef einungis sóknardagabátarnir 30 eru taldir er úreldingarstyrkurinn að meðaltali 3,5 milljónir króna fyrir hvern bát. Má búast við að styrkir vegna báta sem notfærðu sér það tilboð sem hér er gerð tillaga um mundu verða næst þessu síðasttalda meðaltali. Samkvæmt greiðsluáætlun fyrir Þróunarsjóð sjávarútvegsins er gert ráð fyrir að greiðslustaða sjóðsins verði jákvæð um 200 millj. kr. í lok árs 1998. Í þessu frumvarpi er þó allt að einu gerð tillaga um allt að 200 millj. kr. lántökuheimild til þessa verkefnis.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994,
um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að greiðsla úreldingarstyrkja á krókabátum á sóknardögum verði framlengd til 1. apríl 1998. Eins og fram kemur í greinargerð er enn þörf fyrir fækkun krókabáta á sóknardögum og er gert ráð fyrir að meðalúreldingarstyrkur geti numið allt að 3,5 m.kr. Samkvæmt greiðsluáætlun sjóðsins sem gerð var áður en frumvarp þetta kom fram er talið að handbært fé á árinu 1998 geti numið rúmlega 200 m.kr. Því til viðbótar er lagt til að sjóðurinn geti tekið 200 m.kr. að láni frá endurlánum ríkissjóðs til að mæta væntanlegum kostnaði við umrædda greiðslu.
    Í greiðsluáætlun sjóðsins, sem nær allt til ársins 2009, kemur fram að eigið fé sjóðsins er talið muni verða neikvætt um 580 m.kr. í lok þessa árs. Hin aukna skuld, ef til kemur, mun bætast þar við ásamt vöxtum og verðbótum á afborgunartíma. Ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til að mæta þessari aukningu, enda óvíst að til þess þurfi að koma síðar að gera þurfi viðbótarráðstafanir til að mæta fjárþörf sjóðsins þótt ekki sé hægt að fullyrða það með vissu nú.